Umsóknarfrestur rennur út 15. apríl

 

Hér er stutt kynning á námi í hagnýtri menningarmiðlun:

Námskynning.

Svipmyndir úr náminu 2006 til 2011.

Hér eru upplýsingar um umsóknarferli:

Umsókn um framhaldsnám.

 

Mar 18th 2014

HAGNÝT MENNINGARMIÐLUN

ProfileHagnýt menningarmiðlun er 90 eininga MA-nám sem byggist á þverfaglegu samstarfi með það að markmiði að tengja saman íslenska sögu og menningu og opna nemendum nýjar leiðir í miðlun rannsókna sinna og þekkingar. Áhersla er lögð á að nemendur ljúki miðlunarverkefnum, tileinki sér fjölþætta framsetningu efnis og öðlist reynslu sem geri þeim fært að vinna sjálfstætt á sviði miðlunar.

HMM: NÁMSKEIÐ SKÓLAÁRIÐ 2014 TIL 2015

HMM ‒ HAUSTMISSERI 2014

HMM106F Miðlun og menning 10e Haust. Skylda. Miðvikud. 9:10-11:30.
Kennarar: Ólafur Rastrick aðjunkt og Salvör Nordal siðfræðingur.
Í námskeiðinu er menningarhugtakið tekið til gagnrýninnar skoðunar. Kenningar og skilgreiningar eru reifaðar samtímis því sem hlutverk, skilyrði og áhrif menningar í samtímanum eru vegin og metin. Markmiðið er að skapa samræðu fræðilegrar umræðu um menningararf, menningarstefnu og menningarlega sjálfbærni við praktísk og siðferðileg úrlausnarefni sem tengjast miðlun menningar. Þannig er hugað að samspili menningarlífs við félagslegar, pólitískar og hagrænar aðstæður í sögu og samtíð og kannað hvernig þessir þættir bæði skilyrða og gera mögulega menningarmiðlun í samtímanum. Skoðað er hvernig menningararfur, hefðir, félagslegt minni, hugmyndir um upprunaleika og sjálfsmynd hafa áhrif á mótun og endursköpun menningar og hvernig nota má hugtök eins og „menningarlegt auðmagn“, „menningarlegt forræði“ og „orðræða um menningararf“ til að greina og skilja birtingarmyndir menningar. Námsmat: Heimapróf og verkefni.

HMM101F Miðlunarleiðir 10e Haust. Skylda. Þriðjud. 9:10-11:30.
Kennarar: Eggert Þór Bernharðsson prófessor (umsjón), Halla Kristín Einarsdóttir menningarmiðlari og kvikmyndagerðarmaður og Margrét Pálsdóttir málfræðingur.
Kynntar eru aðferðir við miðlun menningarefnis í hugvísindum og veitt yfirlit um mismunandi miðlunarleiðir. Fjallað er um mismunandi framsetningu menningarefnis og ólíkt inntak efnis eftir miðlunarleiðum og markhópum. Hugað er að því með völdum dæmum, sögulegum og samtímalegum, hvernig unnt er að vinna með kyrrmyndir, lifandi myndir, hljóð, texta, sviðsetningar, vettvangsferðir og munnlega frásögn til að koma menningarefni á framfæri. Fjallað er um samspil ólíkra miðla og mögulega samtvinnun efnis í margmiðlun. Námsmat: Fimm verkefni: tímaritsgrein fyrir almenning; flutningur erindis á nemendaráðstefnu; kynning efnis á veggspjaldi; greining á heimildamynd; greining á sögusýningu.

HMM114F Nýsköpun – hugmyndavinna, verkefnisstjórnun og fjármögnun 10e Haust. Val. Miðvikud. 13:20-15:40.
Kennari: Hannes Ottósson frumkvöðlafræðingur.
Í námskeiðinu er farið yfir atriði er varða nýsköpunarstarf og frumkvöðlahugsun sem og tækifæri, þróun, mat og úrvinnslu hugmynda auk kenninga og aðferða við að gera viðskiptahugmynd markaðshæfa. Framsetning námsþátta miðast við þau verkefni sem frumkvöðull glímir við þegar gæða á hugmynd lífi. Nýsköpun er kynnt sem ferli sem hefst á hugmyndavinnu og þarfagreiningu á markaði. Næst er verkefnisstjórnun og áætlanagerð kynnt til sögunnar. Að lokum er farið yfir fjármögnun og styrkumsóknir auk þess sem stoðumhverfi nýsköpunar eru gerð skil.

HMM113F Miðlun í útvarpi 10e Haust. Val. Fimmtud. 9:10-11:30.
Kennarar: Kristín Einarsdóttir aðjunkt og Margrét Pálsdóttir málfræðingur.
Námskeiðið er haldið í samstarfi við RÚV Rás 1.

Fjallað er um framsetningu efnis í útvarpi og könnuð ólík dæmi um dagskrárgerð. Hugað er að möguleikum munnlegrar miðlunar og hver sé munur á framsetningu efnis í töluðu og rituðu máli og gerð grein fyrir eðli ólíkra miðlunarleiða. Jafnframt er fjallað um viðtalstækni og nemendur þjálfaðir í að taka viðtöl. Einnig verður rætt um hlutverk útvarps í menningarvarðveislu. Nemendur vinna verkefni tengd útvarpsþáttagerð.

 

 

HMM ‒ VORMISSERI 2015

HMM201F Menningarminjar, söfn og sýningar 10e Vor. Val.
Umsjónarkennarar: Eggert Þór Bernharðsson prófessor og Guðbrandur Benediktsson safna- og sagnfræðingur.
Námskeiðið er haldið í samstarfi við Minjasafn Reykjavíkur.
Rætt er um ólíkar leiðir til að setja fram efni á sýningum. Skoðaðar eru ýmsar tegundir sýninga, rætt um ólíka hugmyndafræði á bak við þær og mismunandi vettvang þeirra. Jafnframt er hugað að helstu þáttum í starfsemi safna, leiðir þeirra til að miðla efni og aðferðafræðina sem byggt er á. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, hópvinnu og umræðum. Nemendur vinna sýninga- og safnatengd verkefni.

HMM216F Lifandi miðlun menningararfs 10e Vor. Val.
Kennari: Ingibjörg Þórisdóttir kennslustjóri og dramatúrgur.
Í námskeiðinu er fjallað um það hvernig íslenskum menningararfi er miðlað á „lifandi hátt“. Lifandi miðlun er hluti af menningarumhverfi okkar og hefur áhrif á það hvernig menningararfur þjóðarinnar er settur fram og túlkaður. Í lifandi miðlun felst m.a. að viðfangsefnið er sýnt á leikrænan hátt með notkun handrits eða spuna. Fjallað verður um muninn á því sem kalla má hefðbundna miðlun annars vegar og óhefðbundna miðlun hins vegar og rætt um kosti og galla ólíkra leiða. Einnig verður farið stuttlega í sögu og markmið „lifandi“ miðlunar. Nemendur vinna hagnýt verkefni og útbúa handrit eða vinna á annan hátt út frá mismunandi efni og miðlunarleiðum, t.d. leiklist, tónlist, munnlegri miðlun, sögusýningum, „lifandi leiðsögn“. Farið verður í vettvangsferðir á staði þar sem unnið hefur verið með lifandi miðlun og einnig munu gestafyrirlesarar miðla af reynslu sinni. Námsmat er byggt á þremur verkefnum.

HMM 226F Menningar- og söguferðaþjónusta 10e Vor. Val.
Umsjónarkennarar: Eggert Þór Bernharðsson prófessor og Guðbrandur Benediktsson safna- og sagnfræðingur.
Námskeiðið er haldið í samvinnu við Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar og verður haldið á Vestfjörðum. Tímasetning kynnt síðar.
Fjallað er almennt um menningar- og sögutengda ferðaþjónustu og hvaða hugmyndafræði býr þeim að baki. Sérstaklega er rætt um hvernig menningu og sögu er miðlað og hvaða aðferðir eru einkum notaðar til þess. Áhersla verður lögð á miðlun upplýsinga og þekkingar sem varðar menningu og sögu, svo og efni sem skarast á milli þessara sviða. Fjallað er um helstu leiðir sem koma til greina við miðlun af þessum toga og rætt um kosti þeirra og galla, m.a. út frá ólíkum markhópum. Hugað verður að þeim viðmiðum og gæðastöðlum sem æskilegt sé að fylgja í menningar- og söguferðaþjónustu. Fjallað er um þýðingu slíkrar ferðaþjónustu fyrir ímynd svæða, bæði eins og hún snýr að heimamönnum og aðkomumönnum. Farið verður í vettvangsferðir.

HMM220F Heimildamyndir 10e Vor. Val.
Kennari: Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarmaður og menningarmiðlari.
Forkröfur: Nauðsynleg undirstaða HMM101F Miðlunarleiðir eða sambærilegt námskeið.
Fjallað verður um helstu tegundir og aðferðir heimildamynda og þróun þeirra og tilgangur ræddur. Grunnatriði klippingar og kvikmyndatöku verða á dagskrá. Aðaláhersla verður samt lögð á hagnýt verkefni nemenda og þróun þeirra en allir nemendur munu þurfa að skila að minnsta kosti einni fullbúinni heimildamynd á námskeiðinu.

HMM225F Þáttagerð fyrir lifandi vefrit 10e Vor. Val.
Kennarar: Ármann H. Gunnarsson menningarmiðlari, Eggert Þór Bernharðsson prófessor (umsjón) og Margrét Pálsdóttir málfræðingur.
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að kanna möguleika á notkun vefsins og hvernig hægt sé að nýta hann á fjölbreyttan og lifandi hátt. Einkum verður fjallað um mismunandi tegundir af þáttagerð fyrir vef og nemendur gera stutta vefþætti með fjölbreyttum efnistökum þar sem upptökur fara m.a. fram í myndveri. Nemendur fá einnig þjálfun í að að tala eðlilega og áheyrilega fyrir framan myndavél.

Mar 15th 2014

Næsta »